news

Andabær 7 ár í Heilsustefnunni

11. 12. 2020

Þann 11. desember 2013 tókum við upp Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur hér í Andabæ og erum því 7 ára í dag. Markmið heilsustefnunnar er að stuðla að heilsueflingu í leikskólasamfélaginu með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Þetta verkefni hefur fært okkur mikla gleði og ánægju.

Öll börn ættu að alast upp við það að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í heilsuleikskóla er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu. Markmið heilsustefnunnar er að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð næring, góð hreyfing og listsköpun skal ávallt vera aðalsmerki þeirra. Þetta fellur vel að verkefninu Leiðtoginn í mér þar sem venja 7 fjallar um að rækta sjálfan sig .

Í Andabæ fær hvert barn Heilsubók barnsins sem er gæðamatskvarði heilsuleikskóla og segir til um hvort settum markmiðum heilsustefnunnar er náð. Í þá bók eru skráðar ýmsar upplýsingar um barnið svo sem hæð og þyngd, heilsufar, fjarveru vegna veikinda, næring og svefn, leikur, félagsleg færni/lífsleikni, gróf- og fínhreyfigeta og þróun myndsköpunar. Öll börn í Andabæ fara a.m.k. einu sinni í viku í skipulagða hreyfistund í sal ásamt því að fara í útiveru helst tvisvar á dag. Einnig er hugað að næringaríkum mat og stuðst er við matseðla frá skólar.is.

Við í Andabæ erum spennt að takast á við framtíðina í heilsueflandi samfélagi og leggja okkar að mörkum í að fræða börnn um heilbrigðan lífsstíl.

© 2016 - 2021 Karellen