Karellen

Heilsueflandi leikskóli

Andabær er búin vera Heilsueflandi leikskóli síðan 2018 í kjölfar þess að Borgarbyggð gerðist Heilsueflandi samfélag. Allir leik og grunnskólar í sveitafélaginu eru Heilsueflandi skólar.

 Heilsueflandi leikskóla á vegum embættis landlæknis er ætlað að styðja leikskóla í að vinna markvisst að heilsueflingu og gera hana að hluta af daglegu starfi leikskólans.

Í Aðalnámskrá leikskóla frá 2011 eru heilbrigði og velferð skilgreind sem einn af sex grunnþáttum menntunar sem leikskólar eiga að hafa að leiðarljósi og innleiða í öllu sínu starfi.

Mikill samhljómur er með starfi Heilsueflandi leikskóla og grunnþættinum um heilbrigði og velferð. Heilsueflandi leikskóli mun því nýtast leikskólum sem verkfæri til að innleiða grunnþáttinn heilbrigði og velferð.

Árið 2012 var farið af stað með undirbúning að Heilsueflandi leikskóla og var m.a. haldið málþing um haustið þar sem kynntar voru fyrstu hugmyndir að uppbyggingu verkefnisins.

Í ársbyrjun 2013 var stofnaður vinnuhópur tengiliða þeirra leikskóla sem taka þátt í þróunarverkefni Heilsueflandi leikskóla. Í þessum vinnuhópi sitja einnig aðilar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Kennarasambandi Íslands.

Sérfræðingar á sviði áhrifaþátta heilbrigðis hjá embætti landlæknis skipa stýrihóp Heilsueflandi leikskóla og hafa þeir notið stuðnings vinnuhópsins við að móta drög að viðmiðum og gátlistum fyrir Heilsueflandi leikskóla. Viðmiðin og gátlistarnir voru prufukeyrðir veturinn 2013–2014 í þeim leikskólum sem taka þátt í þróunarstarfinu.

Heilsueflandi leikskóli leggur sérstaka áherslu á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu. Þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk.

Gert er ráð fyrir að Heilsueflandi leikskólar setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaáætlun, og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni.

Stefnan þarf að vera unnin í góðu samstarfi skólastjórnenda, kennara, annars starfsfólks, foreldra, barna og nærsamfélagsins en þannig næst bestur stuðningur við málefnið og sameiginlegur skilningur.

Reglulega þarf síðan að meta árangur stefnunnar og endurskoða í samráði við fulltrúa allra þeirra sem áttu þátt í gerð hennar.


Hægt er að nálgast meiri upplýsingar hér: https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item30702/Heilsueflandi-leikskoli

© 2016 - 2024 Karellen