Karellen
news

Veikindi og innivera

16. 12. 2022

Að gefnu tilefni langar okkur í Andabæ að veka athygli á veikindum og inniveru barna:

Leikskólinn er ætlaður full frískum börnum og kennarar í Andabæ gera ráð fyrir að börnin taki þátt í öllu starfi leikskólans, jafnt úti sem inni. Þess vegna getum við ekki tekið á móti veiku barni og veikist barn í leikskólanum þurfa foreldrar að koma að sækja það. Veikt barn getur smitað önnur börn sem kallar á fjarvistir barna, foreldra og starfsfólks.

Barn með smitandi sjúkdóm á að vera heima þar til smithætta er liðin hjá. Algengt er að börn sem eru að hefja leikskólagöngu fái fjölmargar pestir fyrsta hálfa árið. Kvef er algengast hjá börnum og talið er að hvert barn fái kvef 6-10 sinnum á ári. Kuldi veldur ekki kvefi, heldur berast veirur með úðasmiti milli manna. Einkenni koma fram 1-3 dögum eftir smit en mikilvægt er að skýla öndunarfærum þegar hóstað er og þvo sér vel um hendur. Veirur sem valda kvefi lifa betur í þurru lofti. Þannig eru meiri líkur á því að börn smitist innan dyra en úti. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindum sínum heima og mæti aftur frískt í leikskólann svo það geti tekið þátt í allri daglegri starfsemi leikskólans, úti sem inni.

Veikindi ber að tilkynna til leikskólans og það er góð og gild regla að miða við að börn skuli vera hitalaus heima í einn til tvo daga eftir veikindi.

Sjá Yfirlit yfir helstu smitsjúkdóma barna sem Ágúst Ó. Gústafsson heimilislæknir tók saman í samráði við Þórólf Guðnason barnalækni.

Útivera er hluti af starfsemi leikskólans og börnunum mjög mikilvæg. Við stefnum að því að hvert barn fari út hið minnsta einu sinni á dag yfir vetrartímann og útiveru er ekki sleppt nema í algjörum undantekningartilfellum (eins og t.d í dag vegna kulda). Þau börn sem eru inni allan daginn eru í sama loftinu allan tímann og ná ekki að hreinsa lungun, styrkja sig og efla. Innivera kemur ekki í veg fyrir veikindi og ekki er boðið upp á inniveru til að fyrirbyggja veikindi t.d. ef barn er með kvef eða hósta en hraust að öðru leyti.

Þegar barn hefur verið veikt heima í einhverja daga getur verið heppilegt fyrir barnið að vera styttra úti en venjulega og er þá sjálfsagt að bjóða upp á þann möguleika (t.d. síðast út og fyrst inn).

Skilaboð um styttri útiveru þurfa að koma frá foreldrum sjálfum en ekki barninu.

Við í Andabæ leggjum mikinn metnað í að undirbúa börnin undir framtíðina og er einn liður í því að læra á íslenska veðráttu, hvernig við klæðum okkur og hvernig við njótum útiverunnar. Við erum mis lengi úti, allt frá nokkrum mínútum upp í rúman klukkutíma, í hvert skipti og fer það eftir aldri barna og veðri.

Kær kveðja frá okkur í Andabæ.

© 2016 - 2024 Karellen